Vel lukkaðir tónleikar í kvöld

HljómsveitinÞað ríkir alltaf eftirvænting í loftinu þegar spila á í nýju húsi.  Eins og áður hefur komið fram spilaði hljómsveitin þó í sömu húsum í Köln og Duesseldorf árið 2003, en síðan hefur hljómsveitin ekki farið utan.  Aðstaðan og hljómburður bíósins á Melunum er því það sem fólk á að venjast.  Bæði í gær og í dag var ólýsanlega gaman að spila í þessum frábæru tónleikahúsum.  Hljóðfæraleikararnir heyra betur í sínum hljóðfærahópum sem og öðrum sem gerir allt samspil mun auðveldara.  Einnig er mikill munur á því hversu skýr öll blæbrigði verða.  Mikið óskaplega verður nú gaman þegar nýja húsið okkar við höfnina verður í höfn!!

Tónleikarnir í kvöld voru yfirvegaðri en í gær enda fólk búið að anda frá sér fyrsta tónleika-stressinu.  Efnisskrá tónleikanna í kvöld var Trílógía eftir Jón Leifs, Tilbrigði við stef eftir Paganini eftir Rachmaninoff og svo var Sibelius endurtekinn frá því í gær.  Einleikaranum okkar hefur verið mjög vel tekið bæði í gær og í dag, enda frábær píanisti á ferð.  Fagnaðarlætin eftir Sibelius voru heldur engu minni í kvöld en í gær og eftir undurfallegt aukalag eftir Walton kom rúsínan í pylsuendanum Á SPRENGISANDI.  Það er eins og Þjóðverjar falli í trans yfir grípandi laginu og þeir sem áður virtust settlegir og dannaðir skipta um ham, stökkva á fætur eins og um handboltaleik væri að ræða og bravóa í bak og fyrir.  Og þá loks finnum við til samkenndar með hinum íþróttamönnum þjóðarinnar og verðum voða stolt af því að vera "strákarnir" (eða sko hljómsveitin) ykkar.

JAH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband