16.2.2007 | 15:27
Hver er x-factorinn?
Það er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvað geri S.Í. að áhugaverðri og góðri hljómsveit. Þegar hljómsveitin flýgur frá eyjunni í norðri leita þessar vangaveltur enn frekar á hugann. Fyrir utan auðvitað þá staðreynd að allir hafa hljóðfæraleikararnir langt háskólanám á bakinu og að baki er einnig uppeldi frá mörgum góðum stjórnendum, þá er ýmislegt fleira sem kemur til.
Það er stundum sagt að maður eigi ekki að taka neinu sem sjálfsögðum hlut, því geri maður það þá hverfi allur neisti. Ég held að hljómsveitinni til happs þá beri hún virðingu fyrir því tækifæri að fá að fara erlendis og spila í frábærum tónleikahúsum. Þess vegna leggur fólk sig mikið fram og þess vegna ríkir samstaða um að gera sitt besta. Þessi neisti trúi ég að skili sér til áheyrenda.
Það er líka oft sagt að kostir manns séu um leið gallar manns og ég held að sú speki geti líka átt við um S.Í. Það er auðvitað að vissu leyti ókostur að búa á eyju í miðju Atlantshafinu þar sem hefðin er ekki mikil og t.d. engin eldri sinfóníuhljómsveit til að líta upp til eða bera sig saman við. Á sama tíma er það líka mjög sérstakt að flestallir í hljómsveitinni hafa þekkst eða vitað af hvorum öðrum síðan í æsku. Það væri til dæmis fróðlegt að vita hvernig aðrir hundrað manna vinnustaðir virkuðu ef flestir starfsmannanna hefðu þekkst svona lengi. Þetta gerir hljómsveitina óneitanlega að mörgu leyti eins og ad einni stórri fjölskyldu, sem hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að fólk þekkir vel sterkar sem veikar hliðar hvors annars, ekki síst sem hljóðfæraleika. Þess vegna eru forsendur til dýptar til staðar en á sömu forsendum er auðvelt að halda léttleikanum, án þess að fara út í of mikla yfirborðsmennsku. Þegar svo hljómsveitin bregður undir sig betri fætinum, dregur upp viljastyrkinn og fer í sparihaminn þá held ég að þessar sterku hliðar kristallist í útkomunni á tónleikum.
Það hversu margar konur eru í hljómsveitinni trúi ég að geti einnig vakið mikla athygli hér um slóðir. Ég hef enn ekki upplifað að sjá hljómsveit frá mið-evrópu þar sem t.d. allir leiðandi strengjaleikarar eru konur. Þarna erum við því óneitanlega fyrirmynd og megum vera mjög stolt af!
Kannski felst x-factorinn í einhverju þessara atriða?
Gaman að þessu....
JAH
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.