Styttist í næstu tónleikaferð

Það styttist óðum í næstu tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitarinnar. Að þessu sinni er áfangastaðurin Færeyjar. Hljómsveitin mun flytja dagskrána "Manstu gamla daga" sem flutt var á síðasta starfsári í Háskólabíói við mikinn fögnuð á tvennum tónleikum. Eivör Pálsdóttir og Ragnheiður Gröndal sungu gömul íslensk dægurlög í nýjum útsetningum Hrafnkels Orra Egilssonar, sellóleikara og kynnir var hin eina sanna Ragnheiður Ásta Pétursdóttir. Sinfóníuhljómsveitin og allt þetta sómafólk mun standa á sviði Norðurlandahússins í Færeyjum þann 14. júní næstkomandi og hittir þar fyrir hljómsveitarstjórann Bernmharð Wilkinson, en hann hefur búið í Færeyjum um nokkurt skeið.

Dagskráin verður fyrst leikin hér heima á tónleikum í Háskólabíó 12. júní. tónleikarnir tókust einstaklega vel í fyrra og allir sem misstu af þeim þá, ættu ekki að hika lengi með að kaupa miða. Það er reyndar hægt nú þegar á síðu Sinfó: http://sinfonia.is/default.asp?page_id=6317&event_id=3295

Góða skemmtun!


Myndband 7 / Króatía

Pétur Grétarsson lumaði á einu myndbandi í viðbót, sem er að mestu leyti frá Króatíu. HOE

Spennufall

Það er auðvitað ákveðið spennufall eftir tónleikaferðir sem þessar. Við áttum þó inni smá frí, þannig að flestir eru nú búnir að hlaða batteríin. Enda kannski ekki vanþörf á, næsti konsert bíður handan hornsins, annað kvöld. Þar erum við að vinna með frábærum hollenskum stjórnanda, Lawrence Renes, og magnaðri finnskri söngkonu, Lilli Paasikivi, að nafni. Á efnisskránni er m.a. sinfónía sem gárungarnir kalla stundum "erótíkuna". HOE

Tónleikasalir

Frá KölnEitt af því áhugaverða við að túra með sinfóníuhljómsveit, eins og kannski áður hefur komið fram, er að spila í mismunandi sölum. Ég hef skellt inn nokkrum nýjum myndum Duesseldorfúr fyrstu þremur sölunum, Köln, Düsseldorf og Braunschweig. Öll myndaalbúm má finna hér. HOE

Myndband 6

Myndbandið að þessu sinni er aldrei þessu vant ekki eftir Pétur heldur kollega hans Árna Áskelsson. Hann náði nokkrum kostulegum skotum í einu aukalaganna í Braunschweig. HOE

Iðnaður í Vínarborg

spjald2Þegar við vorum á leiðinni út á flugvöll áðan og sáum stóru efnaverksmiðjurnar tilsýndar kom upp í hugann sú staðreynd að tónlistin er mikill iðnaður hér í Vín. Hljómsveitir koma hingað og fara á hverjum degi, Vínarfílharmonían er talin ein besta, ef ekki sú besta í heimi. Að fá að koma hingað er nokkur upphefð fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands. HOE

Uppselt í Vínarborg-frábærar viðtökur

Færri komust að en vildu í kvöld á lokatónleikum okkar í tónleikaferð þessari. Uppselt og almennt dúndrandi stemning í salnum. Vinafélag Sinfóníunnar var búið að tryggja sér nokkra miða og nutu kvöldsins. Lilya Zilberstein spilaði frábærlega eins og venjulega. Forleikurinn að Galdra Lofti var fyrstur á dagskrá og að loknum Grieg píanókonserti var komið sinfóníu nr. 5 eftir Shostakovich. Við höfum spilað mikið af Shostakovich á liðnum árum en það jafnaðist ekki á við kvöldið í kvöld. Hápunktur ferðarinnar. Viðtökur voru frábærar, Rumon ákvað að spila fyrst Walton-aukalagið, úr Henrí V. Elgar-Chanson de matin fylgdi í kjölfarið en eins og fyrri daginn var það þó þriðja aukalagið sem lyfti þakinu: Á Sprengisandi í útsetningu Páls Pampichler Pálssonar, borins og barnfædds Austurríkismanns, og Sinfó-manns til margra ára. Kunnugir segja engan hafa stjórnað hljómsveitinn eins oft og hann.  Hann var á staðnum og fékk að launum blómvönd og glimrandi lófatak. HOE


Næsta stopp: Wien

Ég er ekki frá því að fullyrða megi að gærdagurinn hafi verið erfiður. 5 tíma rútuferðin til Vínarborgar varð að 6 tímum. Hádegishléið á autobananum var tekið á "Landzeit", þar sem margir fengu beint í æð austurríska matarmenningu. Strax við komu til Vínar var haldið á þriggja tíma æfingu í Konzerthaus. Engin miskunn. Konzerthaus-salurinn er mjög fallegur og ágætis hljómur. Ég er þó ekki frá því að hann geri bassahljóðfærum of hátt undir höfði. Í gærkvöldi fóru margir úr hljómsveitinni á tónleika, tvennt var í boði: Concertgebouw-hljómsveitin og Jansons voru með tónleika í Musikverein og spiluðu Schubert 3 og Bruckner. Frábærir tónleikar. Aðrir fóru í Konzerthaus að heyra Wiener Symphoniker með Ingo Metzmacher. Vín er einstök borg. Að labba t.d. framhjá dánarstað Mozarts og mínútu síðar framá hús Haydns er magnað. Nú er bara duga eða drepast í kvöld! HOE

Myndband 5

Nýjasta myndband PG. Það nefnist "Geðveikur". 

Myndband 4

Nýjasta myndbandið hans Péturs er að þessu sinni tileinkað Liliyu Zilberstein, hinum frábæra einleikara sem er með okkur í ferðinni. HOE

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband