16.2.2007 | 10:04
Hljómsveitin lofuð í hástert
Gagnrýni frá fyrstu þremur tónleikunum í Köln, Duesseldorf og Braunschweig er farin að birtast. Hún hefur verið mjög jákvæð. Tveir félagar, Þórdís Stross og Eggert Pálsson snöruðu hluta úr tveimur greinum vegna tónleikanna í Duesseldorf yfir á íslensku:
Neue Rhein Zeitung - Tonhalle í Duesseldorf
Undir stjórn aðalhljómsveitarstjóra síns Rumons Gamba, mátti hlýða á sýnishorn af kunnáttu hinna metnaðarfullu íslensku hljóðfæraleikara. Þeim var fagnað með húrrahrópum og miklu klappi eftir að hafa spilað tvö snerpuleg aukalög.
Um Trilogiu Piccola eftir Jón Leifs, sama blað:
Tónsproti Bretans ljær verkinu ekki bara aukinn kraft heldur fær það til að glitra eins og ískristal. Af fullum þunga en fjaðurmýkt leiðir Maestro Gamba hljómsveit sína, með hraðann í fyrirrúmi en einnig er áherslan á hetjulegan þunga og ískalda hljóma.
Rheinische Rundschau - Tonhalle í Duesseldorf
Um Sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius
Eftir hlé, glansnúmer fyrir norrænar hljómsveitir, önnur sinfónía Sibelíusar. Nú gaf Gamba loksins hljómsveitinni lausan tauminn sem hljóðfæraleikararnir launuðu með óheftri leikgleði. Fínleg blæbrigði töpuðust þó ekki. Stirndi á lokaþáttinn eins og stórfenglegan orgelpunkt.
Við þetta má bæta að gagnrýnendur hafa aldeilis ekki sparað lofið þegar einleikarinn okkar, Lilya Zilberstein á í hlut. Það má meðal annars sjá hér, sem er gagnrýni frá Köln, og sú eina sem fundist hefur í netútgáfu, enn sem komið er.
HOE
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.