Bestu tónleikar ferðarinnar?

Þriðju tónleikar hljómsveitarinnar á tónleikaferð sinni um Þýzkaland, Austuríki og Króatíu voru haldnir í Stadhalle í Braunschweig að viðstöddum sendiherra Íslands í Þýzkalandi Ólafi Davíðssyni ásamt borgarstjóranum í Braunschweig. Salurinn er heldur óvenjulegur í laginu, sexhyrndur en hljómurinn er engu að síður afar hlýr og voldugur - enda gengu hljómsveit, stjórnandi og einleikari á lagið og var leikgleðinni gefinn laus taumurinn.
Á efnisskránni voru Forleikurinn að Galdra Lofti eftir Jón Leifs, Grieg píanókonsertinn og önnur sinfónía Sibelíusar. Heyrst hefur að heldur þyki Þjóðverjum forleikurinn að Galdra Lofti harður undir tönn og hafa heyrst raddir sem tala um hann sem hálfgert kúltúrsjokk og sumir kvörtuðu undan hjartsláttartruflunum. Engu að síður þáði hljómsveitin gott lófatak að launum fyrir leikinn. Lyliu Zilberstein ætlaði salurinn ekki að sleppa fyrr en hún léti til leiðast að leika aukalag en hún stóðst raunina eftir að hafa verið kölluð 5 sinnum fram á sviðið. Síbelíus fór á mikið flug eftir hlé og var hljómsveitin hyllt að leik loknum með bravóköllum og dynjandi lófataki. Heyrðu flugumenn hljómsveitarinnar ýmsar háfleygar staðhæfingar úti í sal, meðal annars ummæli konu sem sagði við sessunaut sinn að hún hefði nú hlýtt á Sibelíus fluttan í mörg ár en skyldi núna fyrst hvers vegna fólki þætti hann yfirleitt skemmtilegur. Einnig er það farið að tíðkast að kvenpersónur ýmsar ráða sér ekki eftir tónleika og æða upp á svið með yfirlýsingum og látum.
Þjóverjar eru afar þakklátir áheyrendur og láta óspart í ljósi þegar þeim líkar vel enda þurfti hljómsveitin að leika tvö aukalög í lok tónleikanna eftir standandi lófatak og er litlu logið þegar sagt er að Sprengisandur í útsetningu Páls Pampichler Pálssonar sé undantekningarlítið bezti smellur hljómsveitarinnar.

 EP


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kveðjur til Bryndísar Höllu. 

Sinfó brokkar!!!

Erling (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 20:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband