Næsta stopp: Zagreb

auglys2Í dagrenningu var haldið áleiðis til Franz Josef Strauss-flugvallar í útjaðri München-borgar. Arnaldur Indriðason á metsölulistanum í bókabúðinni út á flugvelli. Vertu. Áfangastaður er Króatía. 50 mínútna flug yfir fjallendi en síðar rútuferð inn til Zagreb. Þeir sem fóru með Kammersveit Reykjavíkur til Rússlands um árið kunna að hafa fundið ákveðinn samhljóm í arkitektúr úthverfa þessara tveggja landa Austur-Evrópu.  Þjónustan á veitingastöðum er ekki uppá marga fiska hér í borg, einhverra hluta vegna. Ég ákvað að tékka á froskfiskinum, sem var ágætis matur, lúðu/skötuselur. En, hei, hvað var cornerstone? Kjúklingur með hornsteini. Hljómar vel. Nokkrir félagar skrifa undir mótmælaskjal vegna þéttingar byggðar. Eða var það e-ð ljótt glerhýsi? Hvernig er það, er ekki bannað að blanda sér í innanríkismál sjálfstæðra ríkja? Tónleikahöllin var hin fínasta eftirstríðsárabygging með ágætis hljómi og þakklátum áheyrendum. Sviðsmenn vorir upplifðu kalt stríð þegar deilur upphófust við innfædda kollega um staðsetningu kontrabassa-kassa. Framundan á morgun: 5+ tíma rútuferð til Vínar. Og það er fjör.

 HOE


Lestrarefni

Bendi þeim sem áhuga hafa á afrit af þeirri gagnrýni sem við höfum séð hingað til. Þetta má finna hér, hér, hér, hér og hér!

 HOE


Hver er x-factorinn?

Það er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvað geri S.Í. að áhugaverðri og góðri hljómsveit. Þegar hljómsveitin flýgur frá eyjunni í norðri leita þessar vangaveltur enn frekar á hugann. Fyrir utan auðvitað þá staðreynd að allir hafa hljóðfæraleikararnir langt háskólanám á bakinu og að baki er einnig uppeldi frá mörgum góðum stjórnendum, þá er ýmislegt fleira sem kemur til.


Það er stundum sagt að maður eigi ekki að taka neinu sem sjálfsögðum hlut, því geri maður það þá hverfi allur neisti. Ég held að hljómsveitinni til happs þá beri hún virðingu fyrir því tækifæri að fá að fara erlendis og spila í frábærum tónleikahúsum. Þess vegna leggur fólk sig mikið fram og þess vegna ríkir samstaða um að gera sitt besta. Þessi neisti trúi ég að skili sér til áheyrenda.


Það er líka oft sagt að kostir manns séu um leið gallar manns og ég held að sú speki geti líka átt við um S.Í. Það er auðvitað að vissu leyti ókostur að búa á eyju í miðju Atlantshafinu þar sem hefðin er ekki mikil og t.d. engin eldri sinfóníuhljómsveit til að líta upp til eða bera sig saman við. Á sama tíma er það líka mjög sérstakt að flestallir í hljómsveitinni hafa þekkst eða vitað af hvorum öðrum síðan í æsku. Það væri til dæmis fróðlegt að vita hvernig aðrir hundrað manna vinnustaðir virkuðu ef flestir starfsmannanna hefðu þekkst svona lengi. Þetta gerir hljómsveitina óneitanlega að mörgu leyti eins og ad einni stórri fjölskyldu, sem hefur sína kosti og galla. Kostirnir eru þeir að fólk þekkir vel sterkar sem veikar hliðar hvors annars, ekki síst sem hljóðfæraleika. Þess vegna eru forsendur til dýptar til staðar en á sömu forsendum er auðvelt að halda léttleikanum, án þess að fara út í of mikla yfirborðsmennsku. Þegar svo hljómsveitin bregður undir sig betri fætinum, dregur upp viljastyrkinn og fer í sparihaminn þá held ég að þessar sterku hliðar kristallist í útkomunni á tónleikum.


Það hversu margar konur eru í hljómsveitinni trúi ég að geti einnig vakið mikla athygli hér um slóðir. Ég hef enn ekki upplifað að sjá hljómsveit frá mið-evrópu þar sem t.d. allir leiðandi strengjaleikarar eru konur. Þarna erum við því óneitanlega fyrirmynd og megum vera mjög stolt af!


Kannski felst x-factorinn í einhverju þessara atriða?


Gaman að þessu....

JAH 


Hljómsveitin lofuð í hástert

Gagnrýni frá fyrstu þremur tónleikunum í Köln, Duesseldorf og Braunschweig er farin að birtast. Hún hefur verið mjög jákvæð. Tveir félagar, Þórdís Stross og Eggert Pálsson snöruðu hluta úr tveimur greinum vegna tónleikanna í Duesseldorf yfir á íslensku:

Neue Rhein Zeitung - Tonhalle í Duesseldorf

Undir stjórn aðalhljómsveitarstjóra síns Rumons Gamba, mátti hlýða á sýnishorn af kunnáttu hinna metnaðarfullu íslensku hljóðfæraleikara. Þeim var fagnað með húrrahrópum og miklu klappi eftir að hafa spilað tvö snerpuleg aukalög

Um Trilogiu Piccola eftir Jón Leifs, sama blað:

Tónsproti Bretans ljær verkinu ekki bara aukinn kraft heldur fær það til að glitra eins og ískristal. Af fullum þunga en fjaðurmýkt leiðir Maestro Gamba hljómsveit sína, með  hraðann í fyrirrúmi en einnig er áherslan á hetjulegan þunga og ískalda hljóma. 

Rheinische Rundschau - Tonhalle í Duesseldorf

Um Sinfóníu nr. 2 eftir Sibelius 

Eftir hlé, glansnúmer fyrir norrænar hljómsveitir, önnur sinfónía Sibelíusar. Nú gaf Gamba loksins hljómsveitinni lausan tauminn sem hljóðfæraleikararnir launuðu með óheftri leikgleði. Fínleg blæbrigði töpuðust þó ekki. Stirndi á lokaþáttinn eins og stórfenglegan orgelpunkt.  

Við þetta má bæta að gagnrýnendur hafa aldeilis ekki sparað lofið þegar einleikarinn okkar, Lilya Zilberstein á í hlut. Það má meðal annars sjá hér, sem er gagnrýni frá Köln, og sú eina sem fundist hefur í netútgáfu, enn sem komið er.

HOE 


Næsta stopp: München

Nokkrir félagar úr sinfó kynntu sér í dag hið mikla tækniundur sem Die Bahn (þ.e. þýsku járnbrautirnar!) er og ákváðu að taka lestina frá Hannover til Muenchen meðan aðrir upplifðu stemninguna á þýsku hraðbrautunum, enn aðrir voru skýjum ofar.  Það skal ósagt látið hvaða ferðamáti er þægilegastur.


Það kemur ýmislegt upp á í ferðum. Þórunni Ósk fannst það sniðugt að panta sér kræklinga í Köln en varð fyrir vonbrigðum. Hún náði þó að kría út koníaksstaup til að hindra magavandræði. Matti Nardeu pantaði sér í kvöld krókódílakjöt á tælenskum veitingastað. Aðrir fylgdu ekki í kjölfarið eftir að þjónninn lýsti kjötinu sem einhverskonar samblandi af kjúklingi og fiski! Honum varð ekki meint af enda leggja þessir Frakkar sér ýmislegt til munns.

 SA/HOE


Myndband 3

Pétur Grétars hefur verið iðinn við kolann í myndbandagerðinni. Hér er nýjasta afurð hans, takið eftir loftinu úr tónlistarhúsinu í Duesseldorf. HOE

Myndband 2

Myndband nr. 2 frá Pétri Grétars. HOE

Bestu tónleikar ferðarinnar?

Þriðju tónleikar hljómsveitarinnar á tónleikaferð sinni um Þýzkaland, Austuríki og Króatíu voru haldnir í Stadhalle í Braunschweig að viðstöddum sendiherra Íslands í Þýzkalandi Ólafi Davíðssyni ásamt borgarstjóranum í Braunschweig. Salurinn er heldur óvenjulegur í laginu, sexhyrndur en hljómurinn er engu að síður afar hlýr og voldugur - enda gengu hljómsveit, stjórnandi og einleikari á lagið og var leikgleðinni gefinn laus taumurinn.
Á efnisskránni voru Forleikurinn að Galdra Lofti eftir Jón Leifs, Grieg píanókonsertinn og önnur sinfónía Sibelíusar. Heyrst hefur að heldur þyki Þjóðverjum forleikurinn að Galdra Lofti harður undir tönn og hafa heyrst raddir sem tala um hann sem hálfgert kúltúrsjokk og sumir kvörtuðu undan hjartsláttartruflunum. Engu að síður þáði hljómsveitin gott lófatak að launum fyrir leikinn. Lyliu Zilberstein ætlaði salurinn ekki að sleppa fyrr en hún léti til leiðast að leika aukalag en hún stóðst raunina eftir að hafa verið kölluð 5 sinnum fram á sviðið. Síbelíus fór á mikið flug eftir hlé og var hljómsveitin hyllt að leik loknum með bravóköllum og dynjandi lófataki. Heyrðu flugumenn hljómsveitarinnar ýmsar háfleygar staðhæfingar úti í sal, meðal annars ummæli konu sem sagði við sessunaut sinn að hún hefði nú hlýtt á Sibelíus fluttan í mörg ár en skyldi núna fyrst hvers vegna fólki þætti hann yfirleitt skemmtilegur. Einnig er það farið að tíðkast að kvenpersónur ýmsar ráða sér ekki eftir tónleika og æða upp á svið með yfirlýsingum og látum.
Þjóverjar eru afar þakklátir áheyrendur og láta óspart í ljósi þegar þeim líkar vel enda þurfti hljómsveitin að leika tvö aukalög í lok tónleikanna eftir standandi lófatak og er litlu logið þegar sagt er að Sprengisandur í útsetningu Páls Pampichler Pálssonar sé undantekningarlítið bezti smellur hljómsveitarinnar.

 EP


Næsta stopp: Hannover

Stau!Hin hliðin á tónleikaferðalögum, umferðarhnútur í rigningu innan um endalausar raðir af flutningabílum. Þetta er neyslubrjálæðið í hnotskurn. Allir vilja sína spænsku chorizo, balsamic edikið frá Modena, hollenska goudann og vínin frá Frakklandi - og einhvern veginn þarf þetta allt að komast á eldhúsborðið okkar.
Fólk finnur sér ýmislegt til dundurs, það er ipodinn og bókin, aðrir tefla eða sitja við hannyrðir.Að tafli

Vel á minnst, meðan tollverðirnir voru í óðaönn við að gera allt vaselínið upptækt í Leifsstöð sem hinir vara-viðkvæmu í hljómsveitinni báru með sér, valsaði Lilja horn í gegn með oddhvassa prjónana án nokkurra athugasemda. Breyttar áherslur í hryðjuverkavörnum geri ég ráð fyrir.

Á prjónunumVið nálgumst Hannover óðfluga. Hér er vor í lofti, 12 stiga hitit og gengur á með skúrum. Milt, grátt og súldarlegt - uppáhaldsveðrið hans Sigga selló.

ÞÓM


Myndband 1

Pétur Grétars útbjó lítið myndband frá fyrsta hluta ferðarinnar. Það fylgir hér með. HOE

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband